Vantaði einhverja sentimetra

Pálmi Rafn Pálmason fyrirliði KR.
Pálmi Rafn Pálmason fyrirliði KR. mbl.is/Kristinn Steinn

„Við hefðum líklega þurft örlítið meiri einstaklingsgæði og í fyrirgjafir og síðustu sendingar fyrir markið,“  sagði Rúnar Kristinsson þjálfari KR eftir markalaust jafntefli gegn FH þegar liðin mættust í Vesturbænum í dag og léku í efstu deild karla í fótbolta, Bestu deildinni.

„Við erum meira og minna með boltann allan leikinn, herjum á FH en FH er flott lið með fullt af góðum leikmönnum, sem er ekki í þeirri stöðu sem þeir eru í – alveg eins og við – en við reyndum hvað við gátum, sóttum og sóttum, reyndum að koma okkur í stöður til að skapa betri færi en náðum ekki að skapa okkur nægilega mörg marktækifæri.  Gátum samt gert út um leikinn í fyrri hálfleik en að sama skapi er ég ánægður með að við hleyptum FH ekki oft yfir miðju í seinni hálfleik því þegar FH vann boltann unnum við hann strax af þeim aftur.“

Óhætt er að segja að FH hafi lagt mikla áherslu á varnarleikinn eftir hlé og tókst þar vel upp en  Rúnar þjálfari segir það líka átt að gefa sínum mönnum færi. „FH-ingar ætluðu ekki að fá á sig mark og ég ber virðingu fyrir því, menn leggja upp leiki eins og þeir vilja en við leggjum þá upp til að vinna, hvort sem FH leggst aftar á völlinn og ætlar að beita skyndisóknum til að skora eitt sigurmark.  Það er ein leið til að ná í góð úrslit, sérstaklega þar sem gengi FH í deildinni hefur verið brösótt og maður skilur það en þá skapar það okkur meiri tíma og pláss að hafa boltann en við þurfum að nýta það betur, opna betur leikinn en FH lokaði vel á okkur svo okkur tókst ekki að skapa mikið af færum, það vantaði einhverja sentimetra uppá,“ sagði þjálfarinn.

Þeir voru ekki að eltast við öll stigin

Pálmi Rafn Pálmason fyrirliði KR segir sína menn hafa átt að bregðast við þéttum varnarleiki FH. „Mér fannst fátt um færi, þegar maður spáir í þetta eftir leik,“ sagði Pálmi Rafn eftir leikinn.  Ég veit ekki hvað við vorum mikið með boltann, það var mun meira og held að þeir hafi ekkert sérstaklega verið að eltast við öll stigin og séu bara ánægður með eitt.   Ég held að það hafi verið uppleggið hjá FH en við ætluðum okkur þrjú stig, reyndum allt til þess FH-ingar voru hinsvegar þéttir og gerðu okkur erfitt fyrir, það var synd að fá ekki náð sigri í dag.  Mér fannst FH ætla að verja stigið og allt í góðu með það en þá er það okkar að reyna leysa það mál en náðum ekki alveg að gera það í dag, vorum svolítið mistækir í síðustu sendingu og að gera út um sóknir – þó þær hafi ekki verið margar þá voru fyrirgjafir okkar sérstaklega að klikka og þessi lokasending, sem var ekki nógu nákvæm.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert