Við réðum ekki við þá

Atli Jónasson ver víti frá Höskuldi Gunnlaugssyni í kvöld.
Atli Jónasson ver víti frá Höskuldi Gunnlaugssyni í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

„Mér fannst við að mörgu leyti flottir í dag og ég held að þetta sé hugarfarsleg gott fyrir framhaldið,“ sagði Sigurður Heiðar Höskuldsson þjálfari Leiknis eftir 4:0 tap þeirra gegn Breiðabliki í Bestu deildinni í fótbolta kvöld.

„Mér fannst við aðeins kröftugri í seinni hálfleik þá opnaðist aðeins leikurinn og við þurfum að stíga aðeins framar. Við missum Óttar út af í fyrri hálfleik og það riðlar okkur aðeins. Svo fáum við mark á okkur úr föstu leikatriði en mér fannst við hafa staðið varnarleikinn ágætlega og við fengum eitt dauðafæri sem hefði getað breytt leiknum í fyrri hálfleik,“ sagði Sigurður en Zean Dalugge var hársbreidd frá því að koma Leikni yfir eftir um 20 mínútna leik.

„Við komum með krafti inn í seinni hálfleik en gerum mistök og fáum á okkur mark á upphafsmínútunum og þá fer hálfleiksræðan og það sem við lögðum upp fyrir seinni hálfleikinn út um gluggann fyrst við erum lentir tveim mörkum undir en svo fannst mér við vera duglegir og hjarta í þessu og leikurinn opnast aðeins. Gæðin í Blikaliðinu eru hrikalega góð á síðasta þriðjung í þessum mörkum sem þeir skora og við réðum ekki við það,“ sagði Sigurður í viðtali við mbl.is eftir leikinn í kvöld.

Sigurður Heiðar Höskuldsson þjálfar Leikni.
Sigurður Heiðar Höskuldsson þjálfar Leikni. Ljósmynd/Sigfús Gunnar Guðmundsson

Óttar Bjarni Guðmundsson fór út af í fyrri hálfleik með höfuðhögg og Sindri Björnsson er einnig að kljást við höfuðmeiðsli. Kristófer Konráðsson var einnig ekki í leikmannahóp í kvöld vegna meiðsla.

„Ég hef ekki áhyggjur af hópnum fyrir næsta leik. Það er ágætis staða á hópnum en það er hrikalega svekkjandi að missa Óttar aftur, hann hefur verið að glíma við höfuðmeiðsli í allt sumar, frá fyrstu umferð. Leikur númer tvö í kvöld og hann fær aftur höfuðhögg, það er hræðilegt en annars er góð staða á hópnum. Sindri ætti að vera klár í næsta leik og þá eru einn eða tveir frá svo hópurinn lítur vel út.“

Næsti leikur Leiknis er gegn FH sem er aðeins tveimur stigum fyrir ofan Leikni. „Mjög spennandi leikur við FH, þetta verður alvöru viðureign. Við munum loka þessum leik í kvöld bara núna strax inn í klefa og einbeita okkur að næsta því við erum í hörku fallbaráttu og við þurfum að koma vel gíraðir inn í næsta leik,“ sagði Sigurður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert