Arnar Gunnlaugsson hefur framlengt samning sinn við Íslands- og bikarmeistara Víkings úr Reykjavík í knattspyrnu.
Þetta tilkynnti félagið á blaðamannafundi í Fossvoginum í dag en samningurinn er til næstu þriggja ára og gildir út keppnistímabilið 2025.
Þjálfarinn, sem er 49 ára gamall, hefur náð frábærum árangri með Víkinga frá því hann tók við liðinu árið 2018 en undir hans stjórn varð liðið bæði Íslands- og bikarmeistari á síðustu leiktíð.
Yfirlýsing Víkinga:
Knattspyrnudeild Víkings hefur framlengt samning sinn við Arnar Bergmann Gunnlaugsson til þriggja ára. Samningurinn er óuppsegjanlegur af beggja hálfu, rétt eins og fyrri samningar.
Það er með mikilli ánægju sem Víkingur tilkynnir framlengingu á samningi við Arnar Gunnlaugsson. Arnar er einn farsælasti þjálfari félagsins frá upphafi. Frá árinu 2018 þegar Arnar tók við félaginu af Loga Ólafssyni hefur leiðin legið upp á við. Fyrsti titillinn kom í hús árið 2019 og tveir þeir næstu árið 2021.
Umgjörð félagsins hefur batnað mikið á sama tíma. Með yfirmanni knattspyrnumála, Kára Árnasyni hefur skapast samfella í starfinu og meiri samhæfing á áherslum félagsins niður í yngri flokka starfið.
Arnar Gunnlaugsson er leiðtogi mjög öflugs þjálfarateymis sem gengur samstillt til verka og nær árangri. Undir hans stjórn náði félagið að komast í þriðju umferð Evrópukeppninnar þar sem liðið átti stærstan þátt í að tryggja Íslandi fjórða Evrópusætið að ári með mjög góðum úrslitum á móti sterkum andstæðingum.
Evrópuævintýrið í sumar er byrjunin á þeirri vegferð sem félagið vill feta. Undir stjórn Arnars er Víkingum í nútíð og framtíð allir vegir færir.
Sem þjálfari Víkings á undanförnum fjórum árum hefur Arnar byggt upp orðstír sem farin er að skyggja á glæstan leikmannaferil hans. Við Víkingar erum því sérstaklega ánægð með að vera búin að tryggja félaginu starfskrafta hans til næstu þriggja ára hið minnsta.
Undir stjórn Arnars, með hjálp þjálfarateymisins, leikmanna og iðkenda félagsins ásamt sjálfboðaliðum og stuðningsmönnum væntum við áframhaldandi velgengni, uppbyggingar og sætra sigra!
Áfram Víkingur