„Við mættum ekki nægilega grimmir og við grófum okkur holu sem við komumst ekki upp úr. Leikurinn var í raun búinn áður en hann byrjaði,“ sagði svekktur Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 0:3-tap á móti Víkingi úr Reykjavík í undanúrslitum Mjólkurbikars karla í fótbolta í kvöld.
„Þetta eru vonbrigði en stundum er þetta bara svona. Stundum ertu ekki besta útgáfan af sjálfum þér og mér fannst það raunin hjá okkur fyrstu 20 mínúturnar í dag. Við náðum aldrei að setja nægilega mikla pressu á Víkingana,“ bætti hann við og hélt áfram:
„Við vissum að þeir kæmu hátt og við þurftum að vera á tánum fyrstu 20 mínúturnar. Við þurftum að vinna boltann á vallarhelmingnum okkar og ekki fara vel með hann. Við vorum ólíkir sjálfum okkur.“
Karl Friðleifur Gunnarsson, fyrrverandi lærisveinn Óskars, fagnaði fyrir framan sinn gamla þjálfara þegar hann skoraði annað mark Víkings en Óskar vildi ekki mikið tjá sig um það. „Kalli verður að svara því. Ég hef alltaf kunnað vel við Karl Friðleif, hann er öflugur fótboltamaður.“
Eftir mörkin þrjú hjá Víkingi var Breiðablik ekki líklegt til að jafna og var leikurinn erfiður fyrir græna liðið úr Kópavogi.
„Það vantaði að láta boltann ganga hraðar og vera ákveðnari í aðgerðum. Það var sjokk að fá á sig þrjú mörk í byrjun leiks. Við stjórnuðum leiknum en það vantaði trúna eða eitthvað síðasta skref. Það vantaði kraft að klára aðgerðirnar,“ sagði Óskar.