Íslands- og bikarmeistarar Víkings úr Reykjavík eru komnir í þriðja bikarúrslitaleikinn í röð eftir 3:0-sigur á Breiðabliki á útivelli í undanúrslitum í kvöld. Víkingur mætir annað hvort FH eða KA í úrslitum, en þau mætast á Kaplakrikavelli á morgun.
Víkingur varð bikarmeistari árið 2019 og 2021, en enginn varð bikarmeistari árið 2020 þar sem mótið var stöðvað vegna kórónuveirunnar.
Víkingur var óvænt með þriggja marka forskot í hálfleik eftir drauma fyrri hálfleik. En staðan var orðin 2:0 eftir aðeins átta mínútur.
Fyrsta markið kom á 5. mínútu er Davíð Ingvarsson skoraði sjálfsmark. Birnir Snær Ingason átti þá fyrirgjöf inn í teiginn og Anton Ari Einarsson sló boltann í liðsfélaga sinn og í netið.
Aðeins þremur mínútum síðar bætti uppaldi Blikinn Karl Friðleifur Gunnarsson við öðru markinu er hann kláraði með glæsilegu skoti úr teignum eftir fyrirgjöf frá Pablo Punyed.
Víkingar voru ekki hættir því Erlingur Agnarsson skoraði þriðja markið á 20. mínútu er hann nýtti sér slæm mistök hjá Höskuldi Gunnlaugssyni og skoraði í autt markið.
Eina neikvæða við hálfleikinn fyrir Víkinga voru meiðsli Karls Friðleifs og Nikolaj Hansen, en þeir þurftu báðir að fara af velli. Eru þeir báðir nýkomnir aftur eftir meiðsli.
Breiðablik spilaði betur í seinni hálfleik og skapaði sér fín færi en vörn Víkinga og Ingvar þar fyrir aftan vörðust vel. Vörnin varði Ingvar vel og markvörðurinn var klár þegar Víkingar þurftu á honum að halda.
Víkingar voru sáttir við stöðuna og lögðu litla áherslu á að bæta við marki og varð öruggur þriggja marka sigur Fossvogsliðins því raunin.