Sá markahæsti kveður Akureyringa

Nökkvi Þeyr Þórisson er mættur til Belgíu.
Nökkvi Þeyr Þórisson er mættur til Belgíu. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Knattspyrnumaðurinn Nökkvi Þeyr Þórisson er að ganga til liðs við belgíska B-deildarfélagið Beerschot.

Þetta staðfesti Arnar Grétarsson, þjálfari KA, í samtali við mbl.is í dag en sparkspekingurinn Hjörvar Hafliðason greindi frá því á Twitter í dag að Nökkvi væri í læknisskoðun í Belgíu.

Liðið er sem stendur í öðru sæti B-deildarinnar með 7 stig eftir fyrstu fjórar umferðirnar en það féll úr A-deildinni í vor.

Nökkvi Þeyr, sem er 23 ára gamall, hefur farið á kostum með KA í Bestu deildinni í sumar. Hann hefur skorað 17 mörk í 20 leikjum í deildinni og er markahæsti leikmaður Bestu deildarinnar en Blikinn Ísak Snær Þorvaldsson og Framarinn Guðmundur Magnússon koma þar á eftir með 12 mörk hvor.

Nökkvi Þeyr lék sinn síðasta leik fyrir KA í gær þegar liðið gerði 2:2-jafntefli við Fram á Framvelli í Úlfarsárdal í 20. umferð deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert