Við fáum dramatík

Rivkah op het Veld á Old Trafford. Hún er ein …
Rivkah op het Veld á Old Trafford. Hún er ein virtasta sjónvarpskona Hollands. Ljósmynd/Aðsend

„Ég á von á mjög erfiðum leik,“ sagði Rivkah op het Veld, sjónvarpskona hollenska ríkissjónvarpsins, NOS, í samtali við mbl.is um leik Íslands og Hollands í undankeppni heimsmeistaramóts kvenna í fótbolta í Utrecht í kvöld.

Leikurinn er úrslitaleikur um sæti á lokamóti heimsmeistaramótsins. Íslandi nægir jafntefli til að fara á lokamót HM í fyrsta skipti og er því um einn mikilvægasta leik í sögu íslenska kvennalandsliðsins.

„Ísland er erfiður andstæðingur fyrir hollenska liðið. Þetta verður erfiður leikur fyrir Holland, en á sama tíma skemmtilegur leikur,“ sagði hún.

Ísland lék mjög vel á EM

Rivkah var hrifin af frammistöðu Íslands á EM, þar sem liðið tapaði ekki leik. Þrátt fyrir það fór íslenska liðið ekki í átta liða úrslit, þar sem niðurstaðan var þrjú 1:1-jafntefli á móti Belgíu, Ítalíu og Frakklandi.

„Við sáum síðasta haust að Holland verður að spila góðan fótbolta til að vinna Ísland og það hefur ekki alltaf reynst liðinu auðvelt. Ísland lék mjög vel á EM og sérstaklega í leiknum á móti Frakklandi. Þetta verður ekki auðvelt fyrir Holland,“ sagði hún.

Rivkah op het Veld á von á erfiðum leik fyrir …
Rivkah op het Veld á von á erfiðum leik fyrir hollenska liðið. Ljósmynd/Aðsend

Stuðningsmenn hollenska liðsins virðast ekki endilega átta sig á því að liðið sé að fara að spila gríðarlega mikilvægan leik, skömmu eftir Evrópumótið. Þrátt fyrir það er búist við að minnsta kosti 16.000 áhorfendum í Utrecht, þar af um 150 Íslendingum. 

„Stemningin er góð og við eigum von á um 16.000 áhorfendum. Fólk verður samt aðeins að vakna og átta sig á að hollenska liðið sé að fara að spila svona stóran leik, stuttu eftir EM. Þetta er risastór leikur og sæti á HM er undir. Vonandi mun mikið af fólki fylgjast með.“

Áhuginn að aukast hægt en örugglega 

Hollenska liðið varð Evrópumeistari á heimavelli árið 2017. Þá var upphafsleikurinn gegn Noregi, sem Holland vann 1:0, spilaður á sama velli í Utrecht. Hún segir áhugann á hollenska liðinu hafa aukist í heimalandinu síðan, en Holland fór í úrslitaleik HM í Frakklandi árið 2019 og fékk silfur eftir tap gegn Bandaríkjunum. 

„Upphafsleikur EM var spilaður hér fyrir fimm árum og frá þeim leik hefur áhuginn á liðinu aukist töluvert. Liðið fær mun meiri athygli og fólk tekur hollenska kvennalandsliðinu alvarlegar en áður. Árangurinn fyrir EM í sumar var glæsilegur. Liðið varð Evrópumeistari og fór síðan í úrslit á HM. Áhuginn er enn að aukast hægt en örugglega.“

Leikurinn fer fram á Galgenwaard-vellinum í Utrecht.
Leikurinn fer fram á Galgenwaard-vellinum í Utrecht. mbl.is/Jóhann Ingi

Andries Jonker tók á dögunum við hollenska liðinu af Englendingnum Mark Parsons, en hann var látinn fara eftir að Holland féll úr leik í átta liða úrslitum EM eftir tap gegn Frakklandi í framlengdum leik. Rivkah á ekki von á að Jonker breyti liðinu mikið.

„Ég á von á einhverjum breytingum. Hann er bara búinn að fá viku með liðið og því á ég ekki von á of miklum breytingum. Breytingarnar sem við munum sjá verða minniháttar og leikskipulagið verður eflaust svipað og áður. Nýi þjálfarinn vill spila sóknarbolta og pressa vel á andstæðingana, en við sjáum til hvernig hann stillir liðinu upp,“ sagði sú hollenska.

Gaman að sjá að ein hollensk kona varð Evrópumeistari 

England varð Evrópumeistari í fyrsta sinn á heimavelli í sumar. Hollendingurinn Sarina Wiegman stýrði þá liðinu alla leið, eftir að hafa gert slíkt hið sama með hollenska liðið fimm árum á undan, einmitt líka á heimavelli. Rivkah segir Hollendinga hafa samglaðst Wiegman, þótt það hafi ekki bætt upp fyrir vonbrigðin hjá hollenska liðinu.

Sveindís Jane Jónsdóttir og Dominique Janssen eigast við í fyrri …
Sveindís Jane Jónsdóttir og Dominique Janssen eigast við í fyrri leik liðanna á Laugardalsvelli í september á síðasta ári. Holland vann 2:0. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það voru allir í Hollandi örlítið glaðir að Sarina Wiegman hafi gert England að Evrópumeistara. Það er magnað að henni hafi tekist að vinna EM tvisvar í röð með tveimur mismunandi liðum. Við vitum hversu góð hún er, frá tímanum hennar með hollenska liðið.

Að gera þetta aftur með stórri þjóð, þar sem pressan var gífurleg, er ótrúlegt. Margir Hollendingar héldu með enska liðinu eftir að Holland féll úr leik. Þetta bætti ekki upp fyrir ófarir hollenska liðsins, en það var gaman að sjá að allavega ein hollensk kona varð Evrópumeistari,“ sagði hún og hló.

Jafntefli eða hollenskt sigurmark í lokin

En hvernig spáir hún leiknum í kvöld?

„Þetta verður mjög jafn leikur. Hollenska liðið hefur skorað mikið á lokakaflanum að undanförnu. Þetta verður annað hvort jafntefli, eða Holland skorar sigurmark á 87. mínútu. Við fáum dramatík!“ sagði hún að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert