Topplið Breiðabliks í Bestu deild karla í fótbolta gerði ekki góða ferð til Akureyrar í dag. Blikar þurftu að lúta í gras gegn KA eftir ærandi spennu og dramatík.
Leiknum lauk 2:1 en Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði sigurmarkið úr víti undir lok leiksins.
KA-menn mættu til leiks án Nökkva Þeys Þórissonar, sem seldur var til Belgíu á dögunum. Voru menn spenntir að sjá hvernig sóknarleikur KA gengi án Nökkva en hann skoraði 22 mörk fyrir liðið í leikjum sumarsins. Þjálfarinn, Arnar Grétarsson, var kominn aftur á hliðarlínuna hjá KA eftir að hafa tekið út fimm leikja bann í deildinni.
Fyrri hálfleikurinn í dag var hraður og skemmtilegur. Blikar pressuðu stíft í upphafi leiks og voru mjög aðgangsharðir lengi vel. Ekki fengu þeir mörg færi en hornspyrnurnar urðu fimm í byrjun leiks. Það kom eins og þruma úr heiðskýru lofti þegar KA tók forustuna í leiknum um miðjan hálfleikinn. Heimamenn fengu umdeilda aukaspyrnu á hægri kantinum. Sveinn Margeir Hauksson lúðraði boltanum inn á markteiginn þar sem Blikar voru steinsofandi. Rodrigo Gómez nýtti sér það, kom á ferðinni og stangaði boltann inn af stuttu færi.
Eftir mark KA kom jafnvægi í leikinn og liðinn sóttu á víxl en Blikarnir stigu upp á lokakafla hálfleiksins og voru nálægt því að skora. Viktor Karl Einarsson fékk algjört dauðafæri en skot hans fór fram hjá marki KA. Staðan var 1:0 fyrir KA í hálfleik en Blikar þurftu kortér í seinni hálfleiknum til að jafna leikinn. Það gerði Viktor Karl Einarsson með föstu skoti á nærstöngina.
Eftir mark Blika var leikurinn bráðfjörugur og spennandi þar sem bæði lið sóttu til sigurs. Þegar kortér var eftir af leiknum átti sér stað mjög eftirminnilegt atvik þegar Ívar Örn Árnason lenti illa á stöng Blikamarksins, með þeim afleiðingum að netið á markinu rifnaði.
Spennan í leiknum var ærandi á lokakaflanum og fullt af færum komu hjá báðum liðum. KA fékk víti þegar skammt lifði leiks og nýtti sér það til sigurs. Hallgrímur Mar Steingrímsson fór á punktinn og skoraði af öryggi. Uppbótatíminn var sjö mínútur og var pressa Blika mikil á þeim mínútum en KA fékk upphlaup á milli til að klára leikinn endanlega.
Sigur KA tryggir þeim þriðja sætið í bili en nú eiga Blikar sex stig á Víkinga þegar sex leikir eru eftir.
Í lokaumferðinni fyrir skiptin á deildinni fara KA-menn á Hlíðarenda en Blikar fá ÍBV í heimsókn.