FH-ingurinn Steven Lennon náði þeim fágæta áfanga í dag að skora sitt 100. mark í efstu deild karla.
Það skoraði hann á móti Skagamönnum í Kaplakrika í dag þegar hann kom FH-ingum í 5:1 á 83. mínútu leiksins.
Lennon er aðeins fimmti leikmaðurinn í sögu deildarinnar til að skora 100 mörk en af þeim hefur hann skorað 87 fyrir FH, þar sem hann er næstmarkahæstur frá upphafi, og 13 fyrir Fram.
Þá er hann fyrsti erlendi leikmaðurinn sem nær þessum áfanga en hann er 34 ára gamall Skoti og lék kornungur með stórliði Rangers en síðan með Partick Thistle, enska liðinu Lincoln, írska liðinu Dundalk og velska liðinu Newport áður en hann kom til Íslands.
Þetta er tólfta tímabilið hjá Lennon í deildinni en hann lék fyrst með Fram árin 2011 til 2013 og hefur verið leikmaður FH frá 2014.
Tryggvi Guðmundsson á markametið, 131 mark fyrir ÍBV, KR, Fylki og FH, Ingi Björn Albertsson skoraði 126 mörk fyrir Val og FH, Atli Viðar Björnsson 113, öll fyrir FH, og Guðmundur Steinsson skoraði 101 mark fyrir Fram og Víking.
Markahæstu leikmenn efstu deildar frá upphafi:
131 Tryggvi Guðmundsson
126 Ingi Björn Albertsson
113 Atli Viðar Björnsson
101 Guðmundur Steinsson
100 Steven Lennon
95 Hermann Gunnarsson
94 Matthías Hallgrímsson
87 Hörður Magnússon
86 Patrick Pedersen
86 Óskar Örn Hauksson
83 Björgólfur Takefusa
83 Ragnar Margeirsson