„Við spiluðum ekki nægilega vel til þess að vinna leikinn,“ sagði Cyera Hintzen, leikmaður Vals í samtali við mbl.is eftir 1:1-jafntefli liðsins gegn Breiðabliki í 15. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu á Origo-vellinum á Hlíðarenda í kvöld.
„Það var mjög mikilvægt að jafna metin fljótlega eftir að þær komust yfir. Breiðablik er með hörkulið og við vissum það fyrirfram að þetta yrði mjög erfiður leikur. Við byrjuðum seinni hálfleikinn af krafti og í raun eins og við hefðum átt að byrja leikinn en því miður tókst okkur ekki að nýta það sem skildi.
Það var mjög mikilvægt fyrir okkur að tapa ekki leiknum hérna í kvöld og við erum áfram með sex stiga forskot á toppnum sem skiptir öllu máli. Það eru þrír úrslitaleikir eftir af tímabilinu og við þurfum að mæta þannig stemmdar í þá alla því fótboltinn getur verið grimmur ef maður mætir ekki rétt stemmdur til leiks,“ sagði Cyera.
Cyera hefur verið afar mikilvæg Valsliðinu í sumar en hún hefur skorað sex mörk í ellefu leikjum í Bestu deildinni.
„Markmiðið er að skora í hverjum einasta leik en ég má ekki vera of hörð við sjálfa mig. Ég elska Ísland og mér líður ótrúlega vel hérna. Ég vissi lítið um landið þegar ég kom hingað en deildin hérna er mjög sterk og hún hentar mér vel líka,“ bætti Cyera við í samtali við mbl.is.