Mörkin létu á sér standa í stórleiknum

Mist Edvardsdóttir, Lára Kristín Pedersen og Agla María Albertsdóttir í …
Mist Edvardsdóttir, Lára Kristín Pedersen og Agla María Albertsdóttir í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Valur er með sex stiga forskot á toppi Bestu deildar kvenna í knattspyrnu eftir jafntefli gegn Breiðabliki í 15. umferð deildarinnar á Origo-vellinum á Hlíðarenda í kvöld.

Leiknum lauk með 1:1-jafntefli en bæði mörk leiksins komu í fyrri hálfleik.

Leikurinn fór fjörlega af stað og Natasha Anasi átti skalla í slá eftir hornspyrnu Taylor Ziemer strax á 8. mínútu.

Cyera Hintzen fékk mjög gott færi fjórum mínútum síðar þegar Sólveig Jóhannesdóttir Larsen átti frábæran sprett upp hægri kantinn en varnarmenn Blika hentu sér fyrir skot Cyeru og björguðu á síðustu stundu.

Á 32. mínútu dró til tíðinda þegar Anna Petryk átti frábæra fyrirgjöf frá hægri. Boltinn fór yfir miðverði Vals og Karitas Tómasdóttir var mætt á fjærstöngina. Hún átti þrumuskot sem fór í stöngina og inn og Blikar komnir yfir.

Það tók Valskonur ekki langan tím að jafna metin og á 41. mínútu átti Elísa Viðarsdóttir frábæra sendingu inn fyrir á Cyeru sem tók laglega á móti boltanum áður en hún átti frábært skot sem fór yfir Evu Nichole Persson í marki Blika og í netið.

Valskonur byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og strax á 47. mínútu átti Cyera frábært skot, utarlega í teignum, sem fór í stöngina og út.

Anna Rakel Pétursdóttir átti fast skot á 57. mínútu, af 30 metra færi, sem Persson í marki Blika gerði vel í að verja í horn. Upp úr hornspyrnunni átti Mist Edvarsdóttir svo skalla sem Persson varði aftur mjög vel.

Agla María Albertsdóttir átti laglegt skot á 67. mínútu af 35 metra færi en boltinn fór rétt yfir markið.

Bergþóra Sól Ásmundsdóttir átti fínt skot af 30 metra færi eftir hornspyrnu á 79. mínútu en boltinn fór rétt framhjá markinu.

Mariana Speckmaier fékk frábært færi til þess að tryggja Val sigurinn á 88. mínútu þegar boltinn barst til hennar á fjærstönginni en skot hennar fór beint á Persson í marki Blika sem var vel staðsett í markinu.

Í uppbótartíma fékk Birta Georgsdóttir svo besta færi Breiðabliks þegar hún var ein fyrir opnu marki eftir frábæra fyrirgjöf Vigdísar Lilju Kristjánsdóttir en Birta skaut framhjá markinu.

Valskonur eru áfram í efsta sæti deildarinnar með 36 stig og hafa sex stiga forskot á Breiðablik sem er í öðru sætinu með 30 stig.

Valur 1:1 Breiðablik opna loka
90. mín. +3 mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka