Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu um árabil, er í landsliðshópi Íslands fyrir komandi landsleikjaglugga.
Þetta herma heimildir mbl.is.
Aron lék síðast fyrir íslenska karlalandsliðið hinn 8. júní 2021 í vináttulandsleik gegn Póllandi í Poznan en Ríkissaksóknari felldi á dögunum niður mál þar sem Aroni Einari og Eggerti Gunnþóri Jónssyni var gefið að sök að hafa nauðgað konu í Kaupmannahöfn árið 2010.
Ísland mætir Venesúela í vináttulandsleik hinn 22. september í Maria Enzersdorf í Austurríki og svo Albaníu í 2. riðli B-deildar Þjóðadeildar UEFA í Tirana í Albaníu 27. september.
Í fyrsta sinn í langan tíma gat Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska liðsins, valið alla þá leikmenn sem hann hafði hug á að velja en Alfreð Finnbogason verður einnig í hópnum, sem og Jóhann Berg Guðmundsson ef meiðsli hans eru ekki of alvarleg.
Hópurinn verður opinberaður á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal klukkan 13:15 en blaðamannafundurinn verður í beinni textalýsingu á mbl.is.