Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari í knattspyrnu valdi ekki Albert Guðmundsson, leikmann Genoa á Ítalíu, í landsliðshópinn sem var kynntur í dag og sagði á fréttamannafundi KSÍ að hann hefði verið óánægður með hugarfar Alberts.
„Ég var mjög óánægður og svekktur með hugarfar Alberts í síðasta glugga. Það að vera í landsliðinu er mikill heiður og það kallar á 100% hugarfar, alla daga og alltaf. Þú ert annaðhvort 100% eða ekki og við þurfum ekkert að horfa neitt langt til baka,“ sagði Arnar, spurður um Albert.
„Við vitum að bestu leikmenn hafa alltaf sett frammistöðu liðsins fram yfir sína eigin frammistöðu. Það er eina leiðin til að ná árangri. Bæta því við að þetta er ákvörðun sem ég tek fyrir þennan glugga. Er ekki að loka neinum dyrum fyrir framtíðina. Þegar hann er tilbúinn að vera hluti af okkur liðsheild og vinna innan þess ramma sem ég set þá er alltaf pláss fyrir,“ sagði Arnar Þór Viðarsson.