„Það hefðu verið pínuvonbrigði ef markið hefði verið tekið af,“ segir Jakob Snær Árnason, markaskorari KA-manna, en hann var einn af bestu mönnum vallarins þegar KA-menn unnu mikilvægan 1:0 útisigur á Val á Hlíðarenda í dag. Jakob segir að sér hafi þótt sitt lið hafa unnið vel fyrir markinu á þeim tíma, en þeir höfðu þá verið nokkuð sterkari í seinni hálfleik, á meðan Valsmenn hefðu vel getað tekið forystuna í fyrri hálfleik.
Aðstoðardómari lyfti sem sagt flaggi sínu til marks um rangstöðu, en Pétur Guðmundsson, sem átti mjög góðan dag sem dómari, sá hins vegar að fyrirgjöf Hallgríms Mar Steingrímssonar hafði átt viðkomu í Sebastian Hedlund, varnarmanni Vals, en ekki KA-manni, og dæmdi því að markið ætti að standa.
„Það er alltaf sætt að skora, sérstaklega þegar markið telur svona mikið,“ segir Jakob og bætir við að hann hafi verið rólegur þegar flaggið fór á loft, því að hann hafi ekki talið sig vera rangstæðan. „Ég treysti bara Pétri fyrir þessu, og sætt að þetta hafi talið og gefið okkur þetta mikið.“
Markið hans Jakobs gefur KA-mönnum raunar mjög mikið, þar sem Víkingar misstigu sig gegn KR, og eru Víkingur og KA því jöfn að stigum í 2. og 3. sæti, en markatala Víkinga er betri. „Það var heldur ekki verra þegar við fréttum af því [jöfnunarmarki KR gegn Víkingum], þannig að þetta gerir mótið bara meira spennandi. Efstu tvö sætin eru þau sem gefa Evrópu og það hefur verið okkar markmið, og vonandi náum við enn lengra,“ segir Jakob Snær.
-Þið setjið markið sem sagt eins hátt og mögulegt er? „Já, að sjálfsögðu! Tölfræðilega getum við ennþá farið alla leið og meðan það er hægt, þá að sjálfsögðu stefnum við þangað,“ segir Jakob Snær og bætir aðspurður við að hið nýja fyrirkomulag mótsins, þar sem efstu sex liðin spila innbyrðis í síðustu fimm umferðunum bæti klárlega við spennuna sem fylgi Íslandsmótinu.
„Klárlega, og það er bara gaman að sjá hvernig þetta mun þróast. Þetta er fyrsta tímabilið sem þetta er reynt og það er mjög spennandi að taka þátt í þessu. Þetta gæti gefið betri leiki í lok mótsins og auðvitað vonum við það fyrir bæði leikmenn og áhorfendur,“ segir Jakob Snær að lokum.