Verðum að fara æfa aftur, því miður

Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Breiðabliks.
Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Breiðabliks. mbl.is/Kristinn Steinn Traustason

Þeir selja sig dýrt enda lið með sjálfstraust og eru líka líkamlega sterkir svo það tók smá tíma að ná þessu en mér fannst við samt vera við stjórn, líka í fyrri hálfleik þó við værum eitthvað orkulausir en þetta er þolinmæðisvinna og þegar fyrsta markið kemur þá léttir aðeins hjá okkur á meðan Eyjamenn missa aðeins taktinn sinn,“  sagði Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Breiðabliks eftir 3:0 sigur á ÍBV þegar liðin mættust í Kópavoginum í dag þegar fram fór 22. umferð efstu deildar karla í knattspyrnu, Bestu deildinni.

Blikar eru því í efsta sætinu eftir hina hefðbundnu 22 leiki við öll liðin í deildinni og fyrirliðinn segir gott að fá smá hvíld í landsleikjahléinu, næstu tvær vikurnar. „Við fögnum núna, það kemur landsleikjapása og tvær vikur í næsta leik svo verður aðeins fagnað í kvöld.  Við höfum verið lengi í þéttu prógrammi, eiginlega bara spilað og síðan jafnað okkur en þurfum við að fara æfa aftur, því miður, en við verðum að vera klókir í að stjórna orkunni hjá okkur og taka stöðuna á hvernig við stöndum eftir þessa keyrslu á okkur í sumar.   Það er vinna þjálfaranna,“  bætti fyrirliðinn við.

Fínt að skora en stigin betri

Jason Daði Svanþórsson skoraði tvö af þremur mörkum Blika og stóð sig vel, þó aðallega eftir hlé eins og flestir leikmenn Blika. „Við vissum að við þyrftum að standa okkur þegar Eyjamenn pressuðu í byrjun, það var hluti af leiknum.   Við vorum ekki að gera hlutina vel á síðasta þriðjungi vallarins og bættum það aðeins í seinni hálfleik en áttum samt að gera ennþá betur.   Það var gott að skora tvö mörk en enn mikilvægara að fá öll þrjú stigin.  Það verður bara stemming í þessi hléi, góðar æfingar og bara gaman að fá svo fleiri leiki,“ sagði Jason Daði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka