Þór/KA fór langt með að tryggja sér áframhaldandi sæti Bestu deild kvenna í knattspyrnu með því að sigra Keflavík 3:1 á HS Orkuvellinum í Keflavík í dag.
Þór/KA fór uppfyrir Keflavík og er með 17 stig í sjöunda sæti. Keflavík er með 16 stig, Afturelding 12 og KR er fallið með 7 stig. Afturelding mætir Breiðabliki í kvöld.
Fyrri hálfleikur fer seint í sögubækurnar og líkast til einn af þeim daufari, þrátt fyrir tvö mörk frá Þór/KA. Það var á 42. mínútu að vörn Keflavíkur gerði sig sekan um herfileg mistök sem að Margrét Árnadóttir nýtti sér til fulls og koma gestunum yfir.
Þremur mínútum seinna bætti svo Ísfold Sigtryggsdóttir við marki þegar hún negldi boltanum eftir hornspyrnu í markið og þær leiddu 2:0 í hálfleik.
Í þeim seinni var Þór/KA töluvert ákafari í sínum leik sem svo skilaði þeim enn einu markinu á upphafsmínútum seinni hálfleiks. Hulda Ósk Jónsdóttir var þar á ferð, 3:0.
Keflavík náði að minnka muninn svo á 68. mínútu þegar Caroline Van Slambrouck potaði boltanum yfir línuna eftir hornspyrnu, 3:1, og smáneisti kom í leik Keflavíkur eftir það. Sláarskot ásamt öðrum hálffærum litu svo dagsins ljós hjá Keflavík en nær náðu þær ekki og Þór/KA fagnaði gríðarlega mikilvægum sigri sem ansi langt með það að tryggja liðinu sæti sitt í deildinni.
Þrátt fyrir að fyrri hálfleikur hafi verið helst til daufur þá var ögn meiri ákefð í liði gestana frá Akureyri. Aðstæður leyfðu kannski bara ekkert uppá neinn glansbolta þar sem að "lognið" í Keflavík var á fleygiferð og svo rigndi hressilega á tímabili. Í ekki svo áferðahuggulegum knattspyrnuleik voru það einfaldlega gestirnir sem mættu stemmdari til leiks og sigruðu verðskuldað að lokum.