Knattspyrnumaðurinn Tristan Freyr Ingólfsson varð fyrir því óláni að slíta krossband í hné í annað sinn á rúmu ári eftir að hafa nýverið snúið aftur á keppnisvöllinn með liði sínu Stjörnunni.
Tristan Freyr sleit krossband í leik með Stjörnunni í júlí á síðasta ári og gekkst undir aðgerð vegna meiðslanna. Um ári síðar hóf hann að geta æft af fullum krafti á ný og sneri svo aftur á völlinn undir lok síðasta mánaðar gegn KA í Bestu deildinni.
Honum tókst að spila tvo leiki til viðbótar en staðfesti í samtali við Fótbolta.net að í þriðja leik sínum í sumar, gegn Keflavík í Bestu deildinni um þarsíðustu helgi, hafi hann slitið krossbandið á ný.
Því þarf Tristan Freyr að gangast undir aðra aðgerð og verður því frá æfingum og keppni um langt skeið á ný.