Þetta verður góð ferð heim

Hulda Björg Hannesdóttir er fyrirliði Þórs/KA.
Hulda Björg Hannesdóttir er fyrirliði Þórs/KA. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Við erum mjög sáttar og þetta verður góð ferð heim," sagði Hulda Björg Hannesdóttir fyrirliði Þórs/KA við mbl.is eftir mikilvægan sigur á Keflvíkingum, 3:1, í Bestu deild kvenna í Keflavík í dag.

Hún tók undir það að úrslitin hefðu verið sanngjörn, enda komst Akureyrarliðið í 3:0 í byrjun síðari hálfleiks.

„Já, þetta var mjög sanngjarn sigur. Fyrri hálfleikurinn var mjög góður, seinni hálfleikurinn ekki eins góður, vindurinn var erfiður og þær náðu að sækja meira á okkur. En sá fyrri gaf okkur bara fullt og það dugði, sagði Hulda Björg.

Aðspurð um aðstæðurnar og rokið í Keflavík sagði fyrirliðinn:

„Ég hef nú alveg spilað í verra veðri en þessu og fyrst við unnum leikinn þá er ekkert til að kvarta yfir. Við hefðum klárlega  getað haldið boltanum betur, fannst við fara í full mikla panik þegar þær skoruðu markið. En við erum mjög sáttar og þetta verður góð ferð heim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert