Afturelding og Breiðablik mættust á Kópavogsvelli í kvöld í 16. umferð Bestu deildar kvenna. Afturelding í fallbaráttu og Breiðablik í toppbaráttu. Leikurinn endaði 3:0 fyrir Breiðablik.
Markaslaust var í fyrri hálfleik í rigningunni á Kópavogsvelli. Breiðablik var mun sterkari og var að skapa fullt en náðu ekki að koma boltanum í markið þrátt fyrir mörg færi og nóg af hornspyrnum.
Allt annar kraftur var í liði Aftureldingar þegar þær koma inn á völlin í seinni hálfleik en í Blikum sömuleiðis. Á 51. mínútu skoraði Írena Héðinsdóttir Gonzalez fyrsta mark leiksins eftir að skot Öglu Maríu fór í varnarmann. Boltinn datt fyrir Írenu og hún setti hann í fjærhorni, 1:0.
Agla María tvöfaldaði síðan forystu Blika á 69. mínútu með þrumu skoti rétt fyrir utan vítateig. Eva var furðulega staðsett og átti ekki möguleika í þessa neglu frá Öglu, 2:0.
Agla María var svo aftur á ferðinni á 81. mínútu og setti þriðja mark Blika eftir undirbúning frá Helenu Ósk sem átti flotta innkomu en hún kom inn á á 68. mínútu, 3:0.
Afturelding á ennþá möguleika á að halda sér uppi en til þess þurfa þær að vinna tvo næstu leiki. Næsti leikur þeirra er gegn Val sem er í efsta sæti og dugir jafntefli til að tryggja sér titilinn.
Breiðablik á veika möguleika á titli ef Valur tapar síðustu tveimur leikjum sínum. Annað sæti gefur keppnisrétt í Meistaradeildina og þær eru núna með fimm stiga forskot á Stjörnuna í 3. sæti.