Útlitið svart hjá Aftureldingu

Afturelding þarf að vinna næstu tvo leiki til að halda …
Afturelding þarf að vinna næstu tvo leiki til að halda sér uppi en þeir eru gegn Val og ÍBV. mbl.is/Óttar Geirsson

„Ég er hrikalega stoltur af liðinu og við gáfum þeim hörkuleik fram að 51 mínútu en þá refsa þær okkur,“ sagði Alexander Aron Davorsson, þjálfari Aftureldingar, við mbl.is eftir 3:0 tapleik liðsins gegn Breiðablik á Kópavogsvelli í kvöld.

Markalaust var í hálfleik þrátt fyrir margar tilraunir Blika. Í seinni hálfleik komu svo bæði lið sterkari inn í leikinn en Blikar skoruðu sitt fyrsta mark á 51. mínútu.

„Við fáum þrjú dauðafæri þegar við erum 1:0 undir og nýtum þau ekki og þá kom þetta í bakið á okkur.“

Afturelding er núna fjórum stigum á eftir Keflavík í öruggu sæti.

„Við tökum einn leik í einu og eins og staðan er núna er erfiður leikur gegn Val á laugardaginn. Við þurfum bara að gíra okkur í það að spila síðasta heimaleikinn á tímabilinu og gera það vel,“ sagði Alexander í viðtali við mbl.is eftir leik.

Leikmenn Aftureldingar fengu tvö gul spjöld og þurftu þrisvar sinnum að fá aðhlynningu en það eru erfiðir leikir framundan.

„Það voru tvær að detta út í dag, báðir miðjumennirnir okkar eru í banni á móti Val og einn erlendur leikmaður okkar er að fara heim en við verðum allavega 11 inn á vellinum á móti Val,“ sagði Alexander Aron en hvort 11 leikmenn Aftureldingar geti neitað 11 leikmönnum Vals um Íslandsmeistaratitilinn kemur í ljós næstkomandi laugardag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert