„Ég er hrikalega stoltur af liðinu og við gáfum þeim hörkuleik fram að 51 mínútu en þá refsa þær okkur,“ sagði Alexander Aron Davorsson, þjálfari Aftureldingar, við mbl.is eftir 3:0 tapleik liðsins gegn Breiðablik á Kópavogsvelli í kvöld.
Markalaust var í hálfleik þrátt fyrir margar tilraunir Blika. Í seinni hálfleik komu svo bæði lið sterkari inn í leikinn en Blikar skoruðu sitt fyrsta mark á 51. mínútu.
„Við fáum þrjú dauðafæri þegar við erum 1:0 undir og nýtum þau ekki og þá kom þetta í bakið á okkur.“
Afturelding er núna fjórum stigum á eftir Keflavík í öruggu sæti.
„Við tökum einn leik í einu og eins og staðan er núna er erfiður leikur gegn Val á laugardaginn. Við þurfum bara að gíra okkur í það að spila síðasta heimaleikinn á tímabilinu og gera það vel,“ sagði Alexander í viðtali við mbl.is eftir leik.
Leikmenn Aftureldingar fengu tvö gul spjöld og þurftu þrisvar sinnum að fá aðhlynningu en það eru erfiðir leikir framundan.
„Það voru tvær að detta út í dag, báðir miðjumennirnir okkar eru í banni á móti Val og einn erlendur leikmaður okkar er að fara heim en við verðum allavega 11 inn á vellinum á móti Val,“ sagði Alexander Aron en hvort 11 leikmenn Aftureldingar geti neitað 11 leikmönnum Vals um Íslandsmeistaratitilinn kemur í ljós næstkomandi laugardag.