Breiðablik þarf í mesta lagi átta stig úr leikjunum fimm á lokaspretti Bestu deildar karla í fótbolta í október til að verða Íslandsmeistari 2022.
Eftir leiki 22. umferðarinnar á laugardag, þegar Blikar unnu ÍBV 3:0, þar sem Jason Daði Svanþórsson skoraði tvö mörk, á meðan Víkingar misstu 2:0 forskot gegn KR niður í 2:2 jafntefli, er Breiðablik átta stigum á undan Víkingi og KA. Blikar fá þrjá heimaleiki í fimm síðustu umferðunum, eins og reyndar bæði Víkingur og KA.
Blikar fá fyrst Stjörnuna í heimsókn. Síðan fara þeir til Akureyrar þar sem þeir gætu mögulega orðið meistarar með sigri á KA 8. október, eða þá á heimavelli í þriðju umferðinni gegn KR 15. október.
Víkingur og FH mætast í úrslitaleik bikarkeppninnar 1. október, áður en lokasprettur deildarinnar hefst. Þá liggur fyrir hvort þriðja sætið gefur keppnisrétt í Sambandsdeildinni næsta sumar.
Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins.