Fyrirliði KR ósáttur með félagið

Rebekka Sverrisdóttir, til hægri.
Rebekka Sverrisdóttir, til hægri. mbl.is/Óttar Geirsson

Rebekka Sverrisdóttir, fyrirliði kvennaliðs KR í knattspyrnu, gagnrýndi félagið harðlega í viðtali við RÚV eftir 3:5-tap gegn Selfossi í 16. umferð Bestu deildar kvenna á Meistaravöllum í Vesturbæ í gær.

Með tapinu féll KR um deild en það hefur lítið gengið upp hjá Vesturbæingum í sumar og er liðið með 7 stig í tíunda og neðsta sæti deildarinnar.

Það hefur gengið á ýmsu hjá liðinu í sumar en Jóhannes Karl Sigursteinsson lét af störfum í Vesturbænum hinn 22. mái þar sem hann gagnrýndi meðal annars umgjörðina hjá KR-ingum.

Yfir höfuð finnst mér vanta vilja og metnað til að gera hlutina vel,“ sagði Rebekka í samtali við RÚV þegar hún var spurð að því hvað félagið þyrfti að gera til þess að festa sig í sessi í efstu deild.

„Mér finnst mikið talað og lítið gert. Þetta eru allir litlu hlutirnir. Aðstæður sem við höfum hérna í KR. Það er ekki búið að manna börur hér í dag þar sem leikmaður meiðist illa og er sárþjáð inni á vellinum og það tekur ótrúlegan tíma.

Þetta eru litlu atriðin sem að mér þykir ótrúlega sárt að KR geti ekki staðið undir. Það er rosalega margt sem mér finnst að. Hugarfar og mér finnst vanta að það sé staðið við orðin að þau vilji allt fyrir okkur gera,” bætti Rebekka við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert