Nóg var af færum eða öllu heldur mjög mikið af næstum því færum þegar Þróttarakonur sóttu Stjörnuna heim i Garðabæinn í kvöld þegar 16. umferð efstu deildar kvenna í fótbolta, Bestu deildinni, fór fram en það voru Garðbæingar, sem nýttu færin sín aðeins betur og unnu 2:0. Stjörnukonur hafa nú tvo leiki til að taka Meistaradeildarsæti af Blikum.
Óhætt er að segja að leikurinn var fjörugur frá fyrstu mínútu og gestirnir úr Reykjavík fengu fyrstu færin þegar Daniella Marcano náði góðu skoti af stuttu færi og Murphy Agnew rétt á eftir henni á 8. mínútu. Þá fóru Garðbæingar að hlaða betur í sínar sóknir og á 17. mínútu skoraði Betsy Hasset glæsilegt mark með hnitmiðuðu skoti frá hægra vítateigshorni upp í hægra hornið á markinu. Eftir það var eins og Stjörnukonur væru komnar með undirtökin og margar efnilegar sóknir þar sem vantaði bara herslumuninn en þar með er ekki sagt að Þróttur hafi gefið eftir því það komu margar góðar sóknir en vantaði meira uppá að koma boltanum í markið. Eftir það varð minna um góðar sóknir því bæði lið voru búin að fóta sig og loka, að hluta, á möguleg svæði, sem buðu hættunni heim nema hvað í lokin þegar Aníta Ýr Þorvaldsdóttur og Katrínu Ásbjörnsdóttir tókst ekki að skjóta framhjá Írísi Dögg Gunnarsdóttur í marki Þróttar.
Fyrsta færi seinni hálfleiks kom strax á 53. mínútu þegar Írís Dögg í marki Þróttar varði frá Anitu Ýr en mínútu síðar skaut Jasmín Erla Ingadóttir í slánna hjá Þrótti. Þó Þróttur væri með boltann og í sókn strönduðu flestar sóknirnar á þéttri vörn Stjörnunnar en það mátti stundum ekki miklu muna. Hinu megin var meiri hætta á ferð. Á 58 mínútu small aftur í slánni hjá Þrótti þegar Írís Dögg varði þrumuskot Gyðu Kristínar Gunnarsdóttir í slánna og yfir. Á 67. kom næsta mark þegar brotið var á Jasmín Erlu inni í teig og Gyða Kristín tók vítið, þrumaði efst í mitt marki, staðan 2:0. Þegar leið á leikinn komust Þróttarakonur betur inní leikinn og sóknir urðu þyngri en sem fyrr vantaði aðeins uppá. Hins vegar skapaði það líka hættu því Þróttur færði sig framar á völlinn, sem opnaði fyrir snarpar sóknir Garðbæinga. Á lokamínútunum skallaði svo Daniella í stöng Stjörnunnar af stuttu færi, sem var sóknarleikur Þróttar í hnotskurn – vantaði oft lítið uppá.
Með sigrinum er Stjarnan nokkuð örugg með þriðja sætið en gæti líka náð Blikum ef allt gengur upp og hirt þannig Meistaradeildarsæti. Þróttur gæti aftur á móti misst Selfoss og ÍBV fram úr sér ef allt fer á versta veg.