„Þú vilt fá 100% hugarfar í íslenska landsliðinu,“ sagði Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu í samtali við mbl.is í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal á dögunum.
Arnar valdi 23-manna leikmannahóp sinn fyrir komandi landsleiki gegn Venesúela og Albaníu á föstudaginn var en athygli vakti að Albert Guðmundsson var ekki í hópnum.
Albert, sem er 25 ára gamall, er samningsbundinn ítalska B-deildarfélaginu Genoa en hann á að baki 33 A-landsleiki fyrir Ísland.
„Bestu leikmenn landsliðsins, undanfarin ár, hafa alltaf verið með frábært hugarfar og dregið aðra leikmenn með sér,“ sagði Arnar.
„Fyrir mér er þetta algjört lykilatriði og ég er með ákveðinn ramma sem ég vil vinna eftir. Ef leikmenn eru ekki tilbúnir að vinna innan þess ramma þá þarf ég að taka ákvörðun um það hvort ég sé tilbúinn að samþykkja það,“ sagði Arnar.
Það væri ófagmannlegt af mér og ósanngjarnt að nefna þá hluti í fjölmiðlum sem ég er ósáttur með, það er bara á milli mín og Alberts,“ bætti Arnar við.