„Þetta leggst mjög vel í mig. Þetta er spennandi en jafnframt krefjandi verkefni. Ég er búinn að bíða lengi eftir þessu og við erum klárir,“ sagði Davíð Snorri Jónsson, þjálfari U21 árs landsliðs karla í fótbolta, í samtali við mbl.is.
Ísland mætir Tékklandi í tveimur umspilsleikjum, þar sem sæti á lokamóti EM er undir. Fyrri leikurinn er á Víkingsvelli á föstudag og seinni leikurinn ytra á þriðjudag eftir viku.
„Ég á von á mjög góðu liði sem er að koma að heimsækja okkur hérna. Þeir sýndu það í riðlinum að þeir eru með mjög sterkt lið, á heima- og útivelli. Þetta eru strákar í góðu formi sem eru tilbúnir að pressa þig. Við þurfum að vera klárir í ýmislegt.,“ sagði hann.
Ísland tryggði sér sæti í umspilinu með þremur sigrum í röð á heimavelli í júní. Davíð vonast til að sá sprettur haldi áfram í umspilinu.
„Ég ætla að vona það. Það sem er öðruvísi við landslið er að þú færð ekki að vera með liðið í hverri viku. Við erum búnir að byggja upp okkar vegferð í þessum riðli mjög markvisst. Við vildum að júníglugginn yrði endaspretturinn í því. Það gekk vel og við erum fullir sjálfstrausts.“
Íslenska U21 árs landsliðið hefur gert Víkina í Fossvogi að sínum heimavelli og náð góðum úrslitum á vellinum undanfarin ár.
„Okkur líður vel hér. Það er vel hugsað um okkur vikuna fyrir leik og Víkingarnir eiga hrós skilið fyrir hvernig þeir eru búnir að gera þetta. Völlurinn er góður og veðrið líka. Það hefur þróast með hverjum leiknum sem við höfum spilað hérna og umgjörðin líka. Umgjörðin hér er tiptop,“ sagði Davíð.