Valur er Íslandsmeistari kvenna í fótbolta annað árið í röð eftir 3:1-útisigur á Aftureldingu í dag. Afturelding er fallin úr deildinni fyrir vikið. Titilinn er sá 13. hjá Val, en aðeins Breiðablik hefur unnið fleiri eða 18.
Valskonur byrjuðu af krafti og hin bandaríska Cyera Hintzen skoraði fyrsta markið strax á sjöundu mínútu. Hún kláraði þá í markteignum eftir glæsilegan sprett hjá Þórdísi Hrönn Sigfúsdóttur.
Eftir markið jafnaðist leikurinn aðeins og bæði lið fengu eitthvað af færum. Sandra Sigurðardóttir í marki Vals varði til að mynda í tvígang frá Guðrúnu Elísabetu Björgvinsdóttur úr fínum færum.
Annað mark Vals kom hins vegar á 36. mínútu þegar Anna Rakel Pétursdóttir kláraði mjög vel í teignum eftir annan góðan sprett og sendingu frá Þórdísi.
Aðeins tveimur mínútum síðar minnkaði Afturelding muninn. Guðrún Elísabet slapp þá inn fyrir vörn Vals í þriðja sinn og í þetta skiptið varð henni ekki á nein mistök og renndi boltanum í hornið fjær. Það reyndist það síðasta markverða í fyrri hálfleik og var staðan í leikhléi 2:1, Val í vil.
Seinni hálfleikur var aðeins lokaðri og gekk liðunum illa að skapa sér mjög góð færi. Eitthvað var um skot utan teigs eða þröng færi, þar sem markverðir liðanna áttu ekki í vandræðum með að verja.
Fjórða mark leiksins kom þó, en það þurfti að bíða þar til á 87. mínútu. Þórdís lagði þá upp sitt þriðja mark og Cyera Hintzen skoraði annað markið sitt.
Þórdís lagði boltann á þá bandarísku á miðjum vallarhelmingi Aftureldingar og Hitzen skoraði með glæsilegu skoti eftir mikinn sprett og þar við sat.