Þróttur Reykjavík var ekki í vandræðum með KR í leik liðanna í 17. umferð Bestu deildar kvenna en leikið var á AVIS vellinum, heimavelli Þróttar í dag. Þróttarkonur gerðu út um leikinn með þremur mörkum á fyrstu 15. mínútum leiksins og unnu að lokum þægilegan sigur, 5:0.
Heimakonur byrjuðu með miklum látum og skoruðu þær fyrsta markið strax á 6. mínútu leiksins. Sæunn Björnsdóttir skoraði þá stórglæsilegt mark þegar hún átti skot af löngu færi sem small í stönginni og fór þaðan í netið, 1:0.
Þremur mínútum síðar tvöfaldaði Jelena Tinna Kujundzic forystu heimakvenna. Danielle Marcano átti fyrirgjöf sem fór af varnarmanni og barst til Jelenu sem kláraði færið sitt vel, 2:0.
Á 15. mínútu má segja að Þróttur hafi gert út um leikinn þegar Danielle Marcano átti góðan skalla eftir fyrirgjöf frá vinstri vængnum, sem sveif yfir Corneliu í marki gestanna, 3:0. Fleiri voru mörkin ekki í fyrri hálfleik.
Heimakonur slökuðu aðeins á í seinni hálfleik en þær bættu þó við marki úr vítaspyrnu á 77. mínútu. Það var fyrirliði liðsins, markvörðurinn, Íris Dögg Gunnarsdóttir, sem skeiðaði yfir allan völlinn til að taka spyrnuna og gerði það með glæsibrag og skoraði með föstu skoti, 4:0.
Undir lok viðbótartíma ráku heimakonur síðasta naglann í kistu KR-inga þegar Brynja Rán Knudsen lagði boltann í netið af stuttu færi eftir gott samspil. Þróttur fékk aukaspyrnu úti á miðjum velli og náðu upp góðu spili. Boltinn barst út á vinstri kantinn og þaðan inn í teiginn þar sem Brynja Rán lúrði og lagði boltann auðveldlega í netið, 5:0.
Góður dómari leiksins, Twana Ahmed, flautaði til leiksloka og raunir Vesturbæinga urðu því ekki meiri í dag.
KR-ingar voru heillum horfnir á löngum köflum í fyrri hálfleik en hresstust aðeins þegar líða tók á fyrri hálfleikinn. Guðmunda Brynja var hvað líflegust í slöku liði gestanna. Danielle var öflug í liði heimakvenna, skoraði eitt mark og lagði upp tvö önnur. Þá var Ólöf Sigríður einnig síógnandi í liði Þróttar þær 60 mínútur sem hennar naut við í dag. Íris Dögg stóð sig vel í markinu og raunar stóðu báðir markverðir sig nokkuð vel en Cornelia í marki KR greip oft vel inn í.
Með sigrinum heldur Þróttur 4. sætinu í deildinni fyrir lokaumferðina en þær hafa í sjálfu sér ekki að neinu að keppa. KR situr sem fyrr á botninum með aðeins 7 stig. Þróttur mætir Breiðablik á Kópavogsvelli í lokaumferðinni á meðan KR tekur á móti norðankonum í Þór/KA.