Bandaríski markvörðurinn Audrey Baldwin gekk í dag til liðs við Stjörnuna að láni frá HK. Félagsskiptaglugginn er lokaður hér á landi en Stjarnan fékk undanþágu frá KSÍ til þess að sækja Baldwin vegna markvarðahallæris í herbúðum kvennaliðsins.
Baldwin er í byrjunarliði Stjörnunnar fyrir leik liðsins gegn Þór/KA í Bestu deild kvenna, sem hefst klukkan 17.30 á Akureyri í dag.
Aðalmarkvörður Stjörnunnar á tímabilinu, Chanté Sandiford, landsliðsmarkvörður Gvæjana, er ekki í leikmannahópnum í dag og þá er enginn varamarkvörður á varamannabekk Garðabæjarliðsins, ekki frekar en í undanförnum leikjum.
Góð ráð voru því dýr en Stjörnunni tókst að fá hina þaulreyndu Baldwin að láni í tæka tíð fyrir leik dagsins, sem er gífurlega mikilvægur liðinu í baráttu um annað sæti deildarinnar, sem gefur sæti í undankeppni Meistaradeildar Evrópu.
Baldwin, sem er þrítug, á að baki 29 leiki fyrir Fylki og HK/Víking í efstu deild og 25 leiki fyrir HK og Keflavík í næstefstu deild.