Ísland úr leik eftir svekkjandi jafntefli

Kristian Nökkvi Hlynsson í baráttunni í Tékklandi.
Kristian Nökkvi Hlynsson í baráttunni í Tékklandi. Ljósmynd/KSÍ

Ísland missti naumlega af sæti í lokakeppni Evrópumótsins U21-árs landsliða karla í knattspyrnu næsta sumar eftir markalaust jafntefli gegn Tékklandi í síðari leik liðanna í umspili um laust sæti í lokakeppninni í Ceske Budejovice í Tékklandi í dag.

Leikurinn fór rólega af stað og Adam Gabriel átti fyrsta marktækifæri Tékklands þegar hann reyndi utanfótarskot í teignum sem fór beint á Hákon Rafn Valdimarsson.

Fimm mínútum síðar átti Róbert Orri Þorkelsson misheppnaðan skalla frá marki og boltinn datt fyrir Václav Sejk. Sejk reyndi skot, rétt utan teigs, en boltinn fór af Róberti Orra og þaðan í fangið á Hákoni Rafni.

Sejk átti svo hættulegustu tilraun Tékka í fyrri hálfleik þegar hann átti þrumuskot úr miðjum teignum eftir fyrirgjöf Gabriels frá hægri en boltinn fór fram hjá markinu.

Íslenska liðið átti nokkra góða spilkafla í fyrri hálfleik, án þess þó að skapa sér afgerandi marktækifæri, og staðan því markalaus í hálfleik.

Íslenska liðið byrjaði síðari hálfleikinn af miklum krafti. Andri Fannar Baldursson átti frábært skot á 56. mínútu, rétt utan teigs, sem Matej Kovár í marki Tékka varði í horn.

Tveimur mínútum síðar átti Dagur Dan Þórhallsson þrumuskot af 25 metra færi en boltinn sleikti stöngina á leið sinni fram hjá markinu.

Lukás Cerv átti þrumuskot á 60. mínútu en Hákon Rafn var vandanum vaxinn og varði í horn.

Orri Steinn Óskarsson fékk sannkallað dauðafæri á 63. mínútu þegar Óli Valur Ómarsson átti frábæra sendingu frá hægri en skalli Orra úr miðjum teignum fór yfir markið.

Fjórum mínútum síðar fékk Sejk í liði Tékka fínt færi þegar hann fékk fyrirgjöf frá vinstri en hann hitti boltann illa og hann fór langt fram hjá markinu.

Kolbeinn Þórðarson átti laglega marktilraun á 76. mínútu þegar hann átti fast vinstri fótar skot úr miðjum teignum en Kovár í marki Tékka varði mjög vel.

Lukás Cerv átti þrumuskot á 82. mínútu eftir vel útfærða hornspyrnu Tékka en Hákon Rafn í marki íslenska liðsins varði mjög vel frá honum.

Valgeir Lundal Friðriksson fékk besta færi íslenska liðsins í leiknum á 90. mínútu þegar Þorleifur Úlfarsson átti frábæra fyrirgjöf frá vinstri.

Valgeir var einn í markteignum en skot hans fór í höfuðið á Kovár í marki Tékka og þaðan yfir markið.

Valgeir fékk svo að líta rauða spjaldið á lokasekúndum leiksins þegar hann stjakaði við Robin Hranác í vörn Tékka en fleiri urðu færin ekki og lokatölur því 0:0.

Fyrir leik liðanna lauk með 2:1-sigri tékkneska liðsins á Víkingsvelli í Fossvogi á föstudaginn og Ísland er því úr leik en Tékkar eru komnir áfram í lokakeppnina sem fram fer í Georgíu og Rúmeníu næsta sumar.

Tékkland U21 0:0 Ísland U21 opna loka
90. mín. Robin Hranác (Tékkland U21) fær gult spjald +4. Fyrir að tefja.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert