Íslenska þjóðin getur verið stolt

Kolbeinn Þórðarson var afar svekktur í leikslok.
Kolbeinn Þórðarson var afar svekktur í leikslok. Ljósmynd/KSÍ

„Vá, hvað þetta er svekkjandi,“ sagði Davíð Snorri Jónasson, þjálfari U21-árs landsliðs karla í knattspyrnu, í samtali við Viaplay eftir markalaust jafntefli liðsins gegn Tékklandi í síðari leik liðanna í umspili um laust sæti í lokakeppni EM 2023.

Tékkar unnu fyrri leik liðanna 2:1 á Víkingsvelli í Fossvogi sl. föstudag og Ísland fer því ekki í lokakeppnina næsta sumar.

„Leikplanið gekk fullkomlega upp og við löguðum það sem við ætluðum okkur að laga úr fyrri leiknum. Ég er ótrúlega stoltur af þessum strákum og það er ömurlegt að við séum úr leik því ég tel okkur hafa verið á mjög farsælli vegferð með að ná þessum bestu liðum. Reynslan sem þessir strákar hafa öðlast í þessu verkefni er gríðarleg og hún mun nýtast þeim mjög vel í framtíðinni með A-landsliðinu.“

 Margir leikmenn voru að leika sinn síðasta leik fyrir U21-árs liðið í dag.

„Þetta var eins og íslenska frammistaða á að vera og ég er ótrúlega fúll að fá ekki að vera með þennan hóp áfram en það eru líka ungir og efnilegir strákar að koma upp. Þetta eru allt strákar sem íslenska þjóðin getur verið ótrúlega stolt af,“ bætti Davíð Snorri við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert