„Þetta kallar maður liðsheild,“ sagði Guðlaugur Victor Pálsson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við Viaplay eftir 1:1-jafntefli liðsins gegn Albaníu í B-deild Þjóðadeildarinnar í Tirana í Albaníu í kvöld.
„Við sýndum ótrúlegan karakter með því að koma til baka og jafna þennan leik. Það var ákveðið sjokk að missa Aron Einar af velli og fyrri hálfleikurinn var aðeins í takt við það. Mér fannst við koma virkilega sterkir út í seinni hálfleikinn og það var mikill kraftur í okkur. Fyrri hálfleikurinn og seinni hálfleikurinn var nánast svart og hvítt og við gerðum þetta virkilega vel.“
Þrátt fyrir að lenda einu marki undir gafst íslenska liðið aldrei upp og uppskar jöfnunarmark í uppbótartíma.
„Þetta var klaufalegt mark að fá á sig en við gáfumst aldrei upp. Við gerðum þetta saman og baráttan í liðinu skilaði okkur þessu stigi í dag,“ sagði Guðlaugur Victor.