Jóhann Birnir Guðmundsson hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs ÍR í knattspyrnu og mun hann þjálfa liðið ásamt Árna Frey Guðnasyni, sem tók við í sumar.
Ásamt því að vera annar aðalþjálfari liðsins mun Jóhann stýra uppbyggingu afreksþjálfunar fyrir yngri iðkendur félagsins.
Hann á að baki farsælan feril bæði sem leikmaður og þjálfari. Nú síðast starfaði hann hjá FH sem afreksþjálfari en þar á undan starfaði hann sem yfirþjálfari Keflavíkur.
Sem leikmaður lék Jóhann bæði hérlendis og erlendis, þar á meðal með Watford, GAIS og Örgryte sem atvinnumaður, áður en hann lauk ferlinum í Keflavík.