Dagur Dan Þórhallsson úr Breiðabliki var besti leikmaður septembermánaðar í Bestu deild karla í fótbolta, samkvæmt einkunnagjöf Morgunblaðsins.
Dagur Dan hefur verið í stóru hlutverki hjá Breiðabliki undanfarnar vikur og sýndi fjölhæfni sína með því að bregða sér í stöðu vinstri bakvarðar og skila henni afar vel.
Dagur var einn þriggja leikmanna sem fengu fimm M samtals í þeim fjórum umferðum sem voru til hliðsjónar í útreikningunum á leikmanni septembermánaðar.
Viktor Freyr Sigurðsson, markvörður Leiknis úr Reykjavík, fékk einnig fimm M og sömuleiðis Atli Sigurjónsson, hægri kantmaður KR-inga.
Lið mánaðarins má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag ásamt ítarlegu viðtali við Dag.