Hart barist um Meistaradeildarsæti

Breiðablik og Stjarnan eru í hörðum slag um sæti í …
Breiðablik og Stjarnan eru í hörðum slag um sæti í Meistaradeildinni. mbl.is/Arnþór

Lokaumferð Bestu deildar kvenna í fótbolta verður spiluð í heild sinni þegar fimm leikir verða flautaðir á klukkan 14 í dag.

Valur hefur þegar tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn og munu Valskonur taka við bikarnum á heimavelli eftir leik við Selfoss. Selfyssingar geta með sigri farið úr fimmta sæti og upp í það fjórða.

Mesta spennan er hins vegar um annað sæti og sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. Stjarnan er í kjörstöðu og nægir sigur á Keflavík á heimavelli til að tryggja sér annað sæti og sæti í Evrópukeppni í fyrsta skipti frá árinu 2018.

Breiðablik þarf að vinna Þrótt frá Reykjavík og treysta á að Keflavík taki stig af Stjörnunni. Að vísu nægir Breiðabliki jafntefli gegn Þrótti ef Stjarnan tapar á móti Keflavík, þar sem einu stigi munar á liðunum og Breiðablik er með betri markatölu.

Þá mætast ÍBV og Afturelding í Vestmannaeyjum. ÍBV er í sjötta sæti og getur farið upp í það fimmta með sigri en Afturelding er fallin úr deildinni. KR, sem er sömuleiðis fallið, mætir Þór/KA á heimavelli.

Lokaumferð Bestu deildarinnar klukkan 14:
Stjarnan – Keflavík
ÍBV – Afturelding
Valur – Selfoss
KR – Þór/KA
Breiðablik – Þróttur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert