„Það þarf alltaf af mótivera leikmenn fyrir leiki eða réttara sagt þá þarf að beina athyglinni á rétta staði en mitt lið var með góða einbeitingu alla vikuna, allt frá því að leikurinn var búinn fyrir norðan sáum við að þær voru allar rétt stemmdar og ekki of hátt,“ sagði Kristján Guðmundsson þjálfari Stjörnukvenna eftir 4:0 sigur á Keflavík í Garðabænum í dag en sigurinn tryggði liði hans 2. sæti í efstu deild kvenna í fótbolta, Bestu deildinni, og um leið Evrópusæti.
Meiri fótbolti mesti hvati liðsins fyrir leikinn að sögn þjálfarans. „Í leiknum var spennustigið mjög gott, það var mjög gaman á æfingu í gær og við ýttum á réttu punktana sem þarf til að vinna svona leiki. Við vissum að það yrði erfitt að brjóta Keflavík á bak aftur með svona frábæran markmann svo við þurftum að spila agaðan leik, sem við gerðum.“
„Við töluðum um Evrópukeppnina og það er mikið talað um peninga en fyrst og fremst vildum við ná öðru sætinu og komast í Evrópukeppnina til að spila fótbolta við erlend lið. Síðan koma peningar til að ferðast á þessa leiki,“ sagði Kristján.
Þjálfarinn sagði að það yrðu einhverjar breytingar og þar spilaði inní að hann myndi missa leikmenn til náms erlendis þegar kæmi að Evrópuleikjunum. „Það er alltaf einhverjar breytingar á milli ára, alltaf einhverjar sem verða ekki áfram og svo eru skólar í Bandaríkjunum svo við styrkjum okkur eitthvað því Meistaradeildin er spiluð eftir fyrsta ágúst og þá verða einhverjar farnar í skóla í Bandaríkjunum og við þurfum að skoða þetta allt,“ bætti þjálfarinn við.