Baráttan um gullskóinn í Bestu deild kvenna í fótbolta hefur sjaldan verið eins spennandi fyrir lokaumferðina, en hún verður leikin í heild sinni í dag. Verður flautað til leiks klukkan 14 í öllum fimm leikjunum.
Stjörnukonurnar Jasmín Erla Ingadóttir og Gyða Kristín Gunnarsdóttir eru markahæstar sem stendur en Jasmín hefur skorað tíu mörk á leiktíðinni og Gyða einu marki minna.
Stjarnan er í góðum málum ef Jasmín og /eða Gyða skora á móti Keflavík í dag, því liðinu nægir sigur til að tryggja sér sæti í Meistaradeildinni á kostnað Breiðabliks.
Sandra María Jessen hjá Þór/KA hefur skorað átta mörk, eins og þær bandarísku Cyera Hintzen hjá Val, Brenna Lovera hjá Selfossi og Danielle Marcano úr Þrótti.
Þar á eftir kemur Elín Metta Jensen með sjö mörk, en Elín hefur þurft að sitja mikið á bekknum undanfarnar vikur. Hún gæti þó tryggt sér gullskóinn með þrennu á móti Selfossi í dag.