„Við vorum að spila gegn frábæru liði Stjörnunnar og ég vil byrja á að óska þeim til hamingju með frábæran árangur og Valskonum með titilinn,“ sagði Gunnar Magnús Jónsson þjálfari Keflavíkurkvenna eftir 4:0 tap fyrir Stjörnunni þegar liðin mættust í lokaumferð efstu deildar kvenna í fótbolta, Bestu deildinni, í Garðabænum í dag.
„Við vissum að við værum að fara í erfiðan leik en ég var mjög ánægður með mínar stelpur, þær héldu skipulagi vel og gáfu sig allar í leikinn en betra liðið vann þó mörk Stjörnunnar hafi öll komið innan úr markteig. Það hefði samt verið gaman að skora eitt mark.“
Keflavíkurkonum var ekki spáð sem bestu gengi fyrir sumarið og í sumum tilvikum falli. „Við getum ekki verið annað en sáttar með sumarið. Þetta er eiginlega nýtt lið hjá okkur því það voru miklar breytingar fyrir tímabilið svo ég er stoltur af liðinu og það var auðvitað þægilegt að fara inní tvö síðustu leikina án pressu. Við erum bara sátt við að halda okkur í efstu deild, það er oft talað um að það sé erfitt á öðru tímabilinu í deildinni svo mér finnst stór plús að halda velli tvö ár í röð,“ bætti þjálfarinn við.
Er eitthvað farið að spá í framhaldið með leikmenn og þjálfara? „Við höfum aðeins farið að skoða framhaldið verður en nú fyrir alvöru þegar tímabilið er búið, setjumst við niður hjá félaginu, sjáum hvernig við þurfum að taka næsta skref og nú viljum við fara hærra og vera ekki alltaf í þessari fallbaráttu. Við teljum að þurfi ekkert mikið til þess en nú þegar hægist aðeins um skoðum við hvað er best fyrir klúbbinn,“ sagði þjálfarinn í lokin.