Víkingar geta komist í lítinn hóp sigursælla íslenskra knattspyrnufélaga í dag, takist þeim að leggja FH að velli í úrslitaleiknum í bikarkeppni karla, Mjólkurbikarnum, á Laugardalsvellinum.
Víkingar freista þess að verða bikarmeistarar karla í þriðja skiptið í röð en þeir unnu FH í bikarúrslitaleiknum haustið 2019 með vítaspyrnumarki Óttars Magnúsar Karlssonar, 1:0, og lögðu svo Skagamenn að velli, 3:0, í úrslitaleiknum fyrir ári þar sem Erlingur Agnarsson, Kári Árnason og Helgi Guðjónsson skoruðu mörkin.
Reyndar verða Víkingar komnir með bikarinn í hendurnar fjórða árið í röð ef þeir vinna í dag. Bikarkeppninni var hætt haustið 2020 þegar komið var að undanúrslitum, vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Bikarinn hefur því verið geymdur í Víkinni undanfarin þrjú ár.
Arnar Gunnlaugsson getur orðið annar þjálfarinn í sögunni til að verða bikarmeistari karla þrisvar í röð og Matthías Vilhjálmsson fyrirliði FH getur orðið bikarmeistari í sjötta sinn á ferlinum.
Ítarleg umfjöllun um úrslitaleik bikarkeppninnar er í Morgunblaðinu í dag