Arnar Gunnlaugsson varð í gær annar þjálfarinn í sögunni til að stýra sama liðinu til sigurs í þrjú skipti í röð í bikarkeppni karla í fótbolta, þegar Víkingar unnu FH 3:2 í mögnuðum úrslitaleik á Laugardalsvellinum.
Ingi Björn Albertsson varð bikarmeistari með Val þrjú ár í röð, 1990, 1991 og 1992, og Arnar hefur nú unnið 2019, 2021 og 2022, en ekki var leikið til úrslita í bikarkeppninni haustið 2020 vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.
Guðjón Þórðarson er hinsvegar eini þjálfarinn sem hefur orðið bikarmeistari fjögur ár í röð. Hann vann bikarinn með ÍA 1993, með KR 1994 og 1995, og svo aftur með ÍA 1996.