Það var mikil stemmning á Kópavogsvelli er Breiðablik vann afar mikilvægan 3:0 sigur á Stjörnunni í 23. umferð Bestu deildar karla í fótbolta í kvöld.
Fyrri hálfleikurinn var mjög líflegur og strax á þriðju mínútu fengu Eggert Aron Guðmundsson og Guðmundur Baldvin Nökkvason færi til að koma gestunum yfir en Blikarnir náðu að bjarga á línu. Gísli Eyjólfsson keyrði svo upp í næstu sókn og komst einn á móti Haraldi Björnssyni markmanni Stjörnunnar en setti boltann rétt fram hjá.
Skömmu eftir það tóku Blikarnir mestmegnis yfir leikinn og sköpuðu sér ótal færi. Á tólftu mínútu kom svo fyrsta markið er Dagur Dan Þórhallsson fékk boltann vinstra megin frá Oliver Sigurjónssyni. Dagur keyrði þá í átt að vítateignum og er hann var rétt fyrir utan negldi hann boltanum í netið á nærstönginni, staðan var þá 1:0, og meistaraefnin í draumalandi á sínum heimavelli.
Heimamenn héldu svo áfram að sækja og á 30. mínútu sendi Oliver boltann fyrir á fjærstöngina þar sem Ísak Snær Þorvaldsson framlengdi hann þvert fyrir markið þar sem Gísli Eyjólfsson rétt svo missti af boltanum. Hann rann þó til Jasonar Daða Svanþórssonar sem sendi boltann fyrir og af Stjörnumanni stefndi hann inn en Sindri Þór Ingimarsson bjargaði á línu – þvílíkur darraðardans.
Blikarnir héldu áfram að sækja en uppskáru engin mörk og því fór Kópavogsliðið aðeins einu marki yfir til búningsklefa.
Blikarnir héldu áfram sama dampi í síðari hálfleiknum og þegar sex mínútur voru liðnar af honum átti Viktor Karl Einarsson hnitmiðað skot í stöngina og boltinn rann svo í burtu. Ísak Snær slapp svo einn í gegn á 56. mínútu en Haraldur varði frá honum.
Kópavogsliðið tvöfaldaði svo forystu sína á 69. mínútu. Þá skallaði Damir Muminovic hornspyrnu Dags Dan beint á Gísla sem setti boltann undir Harald og í netið, staðan var þá 2:0, og allt trylltist á Kópavogsvelli.
Breiðablik þrefaldaði svo forystu sína á 89. mínútu. Þá fékk Höskuldur Gunnlaugsson boltann frá Antoni Ara Einarssyni og sendi hann þvert fyrir á Jason Daða Svanþórsson sem lék á Harald og renndi boltanum í netið, staðan var þá 3:0, sem voru lokatölur og var afar sannfærandi sigur Kópavogsliðsins niðurstaðan.
Breiðablik er nú með 54 stig og eykur forskot sitt á toppi deildarinnar aftur í átta stig og færist nær og nær Íslandsmeistaratitlinum. Stjarnan er áfram í sjötta sæti með 31 stig.
Breiðablik fer til Akureyrar og mætir næstefsta liðinu í KA í næsta leik sínum. Stjarnan fær bikarmeistara Víkings úr Reykjavík í heimsókn í Garðabæinn í næsta leik sínum.