Elín Metta Jensen, landsliðskona í knattspyrnu, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna eftir farsælan feril, aðeins 27 ára að aldri.
Þetta tilkynnti hún á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi. Þar skrifaði Elín Metta:
„Ég hef ákveðið að leggja knattspyrnuskóna á hilluna. Mér er efst í huga þakklæti til allra þeirra sem hafa lagt sitt á vogarskálarnar til að hjálpa mér að verða bæði betri knattspyrnukona og einstaklingur.
Fótboltinn hefur gefið mér svo margt og svo margar gleðistundir. Nú finn ég hins vegar að það er kominn tími til að sinna öðrum hugðarefnum sem ég hef þurft að setja til hliðar á meðan ég hef sinnt fótboltanum. Takk fyrir allt. Áfram Valur og áfram Ísland.“
Hún hefur leikið fyrir Val allan sinn feril og lék sína fyrstu leiki í efstu deild árið 2010, þá aðeins 15 ára gömul og skoraði um leið sitt fyrsta mark í efstu deild það sumar.
Alls skoraði Elín Metta 132 mörk í 186 leikjum fyrir Val í efstu deild og hún er tíundi markahæsti leikmaðurinn í sögu deildarinnar og næstmarkahæsti leikmaðurinn í sögu Vals, á eftir Margréti Láru Viðarsdóttur. Hún lauk ferlinum á því að vinna tvöfalt með Val, sem stóð uppi sem Íslands- og bikarmeistari.
Þá lék hún 62 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og skoraði í þeim 16 mörk en hún er tíunda markahæsta A-landsliðskona Íslands frá upphafi.