„Þetta eru langbestu stuðningsmenn landsins,“ sagði Oliver Sigurjónsson, leikmaður Breiðabliks, eftir 3:0 sigur á Stjörnunni í Bestu deild karla á Kópavogsvelli í kvöld.
Oliver var hæstánægður með frammistöðu liðsins eftir leik.
„Þetta var geggjaður sigur og vonandi er þetta smá „statement“ frá okkur. Þetta var frábær frammistaða og við erum stoltir af okkur sjálfum. Mér fannst þetta mjög sannfærandi sigur. Við gáfum fá færi á okkur og vorum með góða stjórn á leiknum. Við gerum ekki klaufavillur og þar að leiðandi erum við þéttari til baka og fáum fá færi á okkur. Við sköpum einnig mikið af færum þannig að mínu mati voru þetta sanngjörn úrslit.“
„Markmiðið er að ná góðum frammistöðum og vinna leikina sem við förum í. Nú þurfum við að fara til Akureyrar og vinna KA. Við töpuðum þar síðast þannig við þurfum að hafa betri stjórn á leiknum og nýta færin okkar í þetta skipti. Við þurfum að fara vel yfir KA-liðið – við verðum að vera ofboðslega „agresívir“ og klárir gegn KA. Liðsmenn þeirra eru mjög þéttir og góðir í fótbolta og þeir eru með sterkan heimavöll – erfiðan útivöll eins og einhver sagði. Þetta er bara ellefu á móti ellefu, gervigras og rosa stemmning þannig að ég hlakka rosa mikið til. Við fögnum sigrinum í kvöld en setjum svo alla einbeitingu á leikinn gegn KA.“
Eiginlega alltaf betri
Það var gríðarlega mikil stemmning á Kópavogsvelli allan leikinn og hvað þá eftir leik. Oliver stjórnaði nokkrum fagnaðarlátum og „kveikti vel“ í stúkunni.
„Það er ofboðslega gaman að vinna hérna á heimavelli. Þetta eru að mínu mati langbestu stuðningsmenn landsins, þótt ég sé hlutdrægur. Þeir eru búnir að vera jafngóðir allt tímabilið, svolítið eins og við. Eiginlega alltaf betri á vellinum heldur en andstæðingurinn þannig við erum hrikalega stoltir Blikar í dag. Það er svo gott að vera Bliki í þessu liði, það er svo gaman og vonandi klárum við þetta mót,“ sagði Oliver að lokum.