Dómarar í umspilsleik íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, þar sem sæti á lokamóti HM í Ástralíu og Nýja-Sjálandi er undir, munu fá aðstoð frá VAR, myndbandsdómurum, en UEFA staðfesti tíðindin í dag.
Ísland mætir annaðhvort Portúgal eða Belgíu á útivelli í hreinum úrslitaleik um sæti á lokamóti HM í Ástralíu og Nýja-Sjálandi hinn 11. október næstkomandi.
Portúgal og Belgía mætast í Portúgal 6. október og mætir sigurliðið íslenska liðinu í úrslitum umspilsins. Sigurvegarinn úr þeim leik fær sæti á heimsmeistaramótinu.
UEFA hafði þegar staðfest að tæknin yrði í notkun á lokamótinu, rétt eins og á mótinu árið 2019. Þá var VAR-myndbandstækni einnig notuð á Evrópumótinu á Englandi í sumar og í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar.