Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, segir tilvonandi mótherja liðsins í umspili um laust sæti á HM 2023, Portúgal, hafa átt sigur sinn gegn Belgíu í gærkvöldi fyllilega skilinn.
Sigurvegarinn úr viðureign Portúgal og Belgíu, sem lauk með 2:1-sigri Portúgal þar í landi í gær, mætir Íslandi á heimavelli og því orðið ljóst að íslenska liðið mætir því portúgalska í Pacos de Ferreira á þriðjudag.
„Það er gott að vita við hverja við erum að fara að spila. Við vorum að horfa á leikinn. Portúgalska liðið var bara frábært í þessum leik og átti sigurinn skilinn. Þær voru sterkari aðilinn frá fyrstu mínútu,“ sagði Þorsteinn í samtali við KSÍ TV í gærkvöld.
Spurður hvort það hafi komið honum á óvart að Portúgal hafi verið sterkari aðilinn í leiknum í gær sagði Þorsteinn:
„Já en það eru greinilega einhver vandræði í sóknarhlutanum hjá Belgíu, þær voru í vandræðum sóknarlega og áttu erfitt með að halda í og fara með boltann fram á við.
Það hafði greinilega áhrif að það vantaði tvo mikilvæga pósta í sóknarleikinn sem hafði þau áhrif að sóknarleikurinn var bitlausari.“
„En það var rosalegur kraftur í Portúgal. Þær bara fórnuðu öllu í þetta og spiluðu virkilega góðan og flottan leik,“ bætti hann við.