„Það er hræðilegt að fá svona mark á sig, sérstaklega þegar við áttum að vera búnir að ganga frá leiknum fyrir löngu,“ segir Birkir Már Sævarsson, bakvörðurinn leikreyndi hjá Val, en lið hans tapaði 2:1 fyrir KR í Vesturbænum í dag, þar sem sigurmarkið kom með síðustu spyrnu leiksins.
Birkir Már var einn af betri mönnum vallarins eftir að hann kom inn á um miðjan seinni hálfleik, og sagðist hann telja að Valsmenn hefðu fengið að minnsta kosti 2-3 dauðafæri til að gera út um leikinn áður en sigurmark KR kom. „En ef maður nýtir ekki færin, þá gerist það bara mjög oft í fótbolta að manni er refsað. Það er bara extra súrt að það gerðist með lokaspyrnunni, þannig að við gátum ekki svarað því,“ segir Birkir Már.
Birkir Már Sævarsson og Grétar Snær Gunnarsson sjást hér mætast í leik liðanna fyrr í sumar. Grétar Snær var í leikbanni í dag.
mbl.is/Arnþór Birkisson
Það hefur líklega oft verið meira undir leikjum Vals og KR en í dag, þar sem hvorugt liðið á lengur tækifæri á því að ná Evrópusæti. Birkir Már segir hins vegar að það hafi alls ekki verið vandamál að gíra sig upp fyrir leikinn. „Alls ekki, þetta er alltaf risaleikur í íslenskum fótbolta, þó að akkúrat núna sé enginn titill í boði,“ segir Birkir Már. „En það er í boði fyrir okkur að enda fyrir ofan KR og fyrir þá líka, allir vilja enda eins ofarlega og hægt er.“
Birkir Már segir aðspurður um framtíð sína að hann sé alls ekki á þeim buxum að hætta og stefni á að spila áfram í Bestu deildinni að ári, en samningur hans við Val rennur út í lok tímabilsins. „Forgangsatriðið er fyrsta að vera áfram í Val, og við erum að ræða saman. Ég hef heyrt í þeim og þeir eru að heyra í mér, þannig að vonandi gengur það upp, og þá get ég haldið áfram í mínum klúbbi í Bestu deildinni og reynt að ná í titlana á næsta ári,“ segir Birkir Már að lokum.