Botnlið ÍA vann magnaðan 3:2-sigur á Fram á Akranesi í neðri hluta Bestu deild karla í knattspyrnu í dag.
Heimamenn byrjuðu leikinn betur og skoruðu fyrsta markið eftir korters leik. Eyþór Aron Wöhler fór þá illa með þá Hlyn Atla Magnússon og Orra Gunnarsson, komst upp vinstri kantinn alla leið inn í teig Fram og kláraði vel framhjá Ólafi Íshólm í markinu.
Eftir markið rönkuðu Framarar þó við sér og tæpum 10 mínútum síðar jafnaði Albert Hafsteinsson metin á æskuslóðunum. Fred átti þá aukaspyrnu utan af kanti sem Skagamenn voru í miklum vandræðum með að koma frá og að lokum datt boltinn fyrir Albert í teignum sem kláraði auðveldlega af stuttu færi.
Á 37. mínútu kom Guðmundur Magnússon svo gestunum yfir. Almarr Ormarsson átti þá sendingu inn fyrir vörn ÍA í átt að Guðmundi. Aron Bjarki Jósepsson kastaði sér á eftir boltanum og náði snertingu sem varð til þess að boltinn lak framhjá Árna Marinó Einarssyni markverði sem var kominn aðeins út úr markinu. Árni reyndi að teygja sig í boltann en náði ekki til hans og Guðmundur, sem kláraði hlaupið sitt alla leið, skoraði eitt auðveldasta mark ferils síns í opið mark af um tveggja metra færi.
Skagmenn mættu af miklum krafti inn í seinni hálfleikinn og eftir rúmlega 10 mínútna leik í seinni hálfleik slapp varamaðurinn Ingi Þór Sigurðsson aleinn í gegn frá miðlínu og kláraði frábærlega fram hjá Ólafi. Á 78. mínútu kom Eyþór Aron svo ÍA yfir með öðru marki sínu en Viktor Jónsson átti þá skalla í slá eftir hornspyrnu. Eyþór mætti eins og gammur á frákastið og skallaði boltann í netið.
Þetta reyndist síðasta mark leiksins og er ÍA því svo sannarlega enn á lífi í botnbaráttunni. Liðið er þó enn á botninum en er nú komið með 18 stig. FH er í næst neðsta sæti með 19 stig og Leiknir þar fyrir ofan með 20. Bæði lið eiga þó leik til góða á Skagann en þau mætast einmitt á mánudaginn.