Dramatíkin var í hámarki á Meistaravöllum í dag, þar sem KR-ingar báru sigurorð af erkifjendum sínum í Val 2:1 í 24. umferð Bestu deildar karla. en Stefán Alexander Ljubicic skoraði sigurmark KR-inga með síðustu spyrnu leiksins.
Leikurinn bar þess merki að ekki væri mikið undir annað en stoltið og rígurinn sem ríkir á milli þessara tveggja Reykjavíkurrisa. Bæði lið skiptust á að sækja og voru heimamenn sterkari í upphafi hálfleiksins. Valsmönnum óx hins vegar mjög ásmegin eftir því sem leið á hálfleikinn, og fengu þeir nokkur færi í lok hans, þar sem þeir hefðu getað gert út um leikinn.
Aron Snær Friðriksson, varamarkvörður KR-inga hafði hins vegar fengið sénsinn fyrir þennan leik, og var hann staðráðinn í að nýta hann sem best. Gátu Vesturbæingar þakkað honum fyrir að markalaust var í hálfleik, en Patrick Pedersen fékk besta færi hálfleiksins þegar hann vippaði boltanum yfir bæði Aron Snæ og markið á 39. mínútu.
KR-ingar hófu seinni hálfleikinn hins vegar af miklum krafti og voru, líkt og í þeim fyrri, með betri sóknir framan af hálfleiknum. Náði Pálmi Rafn Pálmason að skora á 54. mínútu, en hann var dæmdur rangstæður.
Eftir það sóttu Valsmenn í sig veðrið, og náði Aron Jóhannsson loksins að brjóta ísinn á 64. mínútu með föstu skoti úr þröngu færi eftir að Patrick hafði saumað boltann í gegnum vörn KR-inga beint á Aron. Virkilega góð afgreiðsla hjá Aroni.
Valsmenn fengu kjörið tækifæri strax í næstu sókn til þess að tvöfalda forystuna, en Ágúst Eðvald Hlynsson skrúfaði boltann yfir markið. Það átti eftir að koma í bakið á Valsmönnum, því Ægir Jarl Jónasson jafnaði metin á 69. mínútu eftir laglegan undirbúning frá Atla Sigurjónssyni og Þorsteini Má Ragnarssyni.
Eftir jöfnunarmarkið endurtók sagan úr fyrri hálfleik sig, þar sem Valsmönnum óx mjög ásmegin, og lágu þungt á KR-vörninni. Fengu Hlíðarendapiltar nokkur fín færi til þess að ná inn sigurmarkinu, en KR-ingar freistuðu þess að sækja hratt með skyndisóknum.
Allt stefndi hins vegar í að leikurinn myndi enda með jafntefli þegar KR-ingar fengu eina skyndisókn til, og skoraði Stefán Ljubicic þá sigurmarkið með viðstöðulausu skoti eftir sendingu frá Theódór Elmari af hægri vængnum. Valsmenn gátu tekið miðju, en ekki mikið meira en það, og fögnuðu heimamenn því vel og innilega dramatískum heimasigri.
Valsmenn eru líklega mjög súrir með úrslitin, enda benti fátt til þess að þeir myndu bíða hér lakari hlut, ekki síst í ljósi þess hversu mjög lá á KR í lok leiksins. Það er hins vegar dýrt að nýta ekki færin, og KR-ingar nýttu sér það og refsuðu á hárréttum tíma.
Með sigrinum fer KR upp í fjórða sæti deildarinnar með 34 stig, en Valsmenn sitja í því fimmta með 32 stig.