Það féllu þung orð í hálfleiknum

Jón Þór á hliðarlínunni í dag.
Jón Þór á hliðarlínunni í dag. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, var að vonum sáttur með sitt lið eftir frábæran 3:2-sigur á Fram í neðri hluta Bestu deildar karla í knattspyrnu í dag.

„Ég er bara hrikalega ánægður með liðið. Mér fannst við spila fínan fyrri hálfleik en vorum klaufar að gefa þeim tvö mörk. Við vorum mjög óánægðir með það í hálfleiknum og það voru stór og þung orð sem féllu þar. Strákarnir svöruðu því frábærlega í seinni hálfleik og sýndu mikinn karakter að gefast aldrei upp þó við værum undir. Mér fannst við spila þennan leik virkilega vel og unnum sanngjarnan sigur.“

ÍA lenti 2:1 undir í leiknum en sýndi mikinn karakter með því að koma til baka og vinna leikinn.

„Það var hjarta og sál í þessu. Menn voru að vinna þetta fyrir hvorn annan og lögðu mikið á sig. Við vissum að við yrðum að leggja mjög mikið á okkur í þessum leik, Fram er búið að spila virkilega vel í sumar. Við vorum klaufar og aular að vera undir í hálfleik en við svöruðum því svo sannarlega vel í seinni hálfleik.“

Sigurinn gerir það að verkum að ÍA er enn í fínum séns á að halda sæti sínu í deildinni. Liðið er nú einu stigi frá FH og tveimur frá Leikni.

„Við munum halda áfram að berjast allt fram á síðustu stund. Þetta er það sem við þurfum að gera, þetta er það sem við þurfum að leggja í þessa leiki. Ef við höldum því þessa síðustu þrjá leiki hlökkum við bara til þeirra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert