Breiðablik getur farið langt með að tryggja sér Íslandsmeistaratitil karla í fótbolta með sigri á KA á útivelli í dag, en flautað verður til leiks klukkan 14.
Með sigri nær Breiðablik ellefu stiga forskot á Akureyrarliðið og verður Víkingur úr Reykjavík þá eina liðið sem getur náð Blikum á toppnum, en bæði Víkingur og KA eru átta stigum á eftir toppliðinu.
KA getur opnað toppbaráttuna með sigri og minnkað forskot Breiðabliks á toppnum niður í fimm stig, þegar þrjár umferðir eru eftir.
KR og Valur mætast einnig í efri hlutanum klukkan 14. Valur er í fjórða sæti með 32 stig, einu sæti og stigi á undan KR. Hvorugt liðið getur náð Evrópusæti og verður því leikið um montréttinn.
Öllu meira er undir á Akranesi, þar sem ÍA og Fram eigast við í neðrihlutanum. ÍA er fimm stigum frá öruggu sæti í deildinni og verður helst að vinna til að eiga möguleika á að halda sæti sínu í deildinni. Framarar eru í fínum málum, níu stigum fyrir ofan fallsæti.
Efri hluti:
14:00 KA – Breiðablik
14:00 KR – Valur
Neðri hluti:
14:00 ÍA – Fram