„Ég held þetta sé ágætisriðill fyrir okkur,“ sagði Jóhannes Karl Guðjónsson, aðstoðarþjálfari A-landsliðs karla í fótbolta, í samtali við mbl.is.
Ísland dróst í dag í J-riðil í undankeppni EM í Þýskalandi 2024. Með Íslandi í riðli eru Portúgal, Bosnía, Lúxemborg, Slóvakía og Liechtenstein.
„Hann er bæði skemmtilegur, það er gaman að fá Portúgal, og svo er þetta riðill sem gefur okkur möguleika. Í fljótu bragði lítur þessi riðill vel út. Við höfum trú á að við getum náð fyrstu tveimur sætunum. Það er okkar markmið og koma okkur á EM þannig.
Það hefur verið markmiðið okkar í langan tíma og við ætlum að vinna að því. Þessi riðill gefur okkur möguleika á að gera það,“ sagði Jóhannes.
Hann viðurkennir að vera feginn að losna við ákveðna riðla. Ísland hefði til dæmis getað lent í riðli með Hollandi og Frakklandi eða Ítalíu og Englandi.
„Já það var fínt að lenda ekki þar og svo voru líka sterk lið í potti þrjú með okkur. Við getum verið mjög sáttir með niðurstöðuna,“ sagði Skagamaðurinn.
Ísland fékk Slóvakíu úr fimmta styrkleikaflokki, en það var eitt sterkasta liðið úr þeim flokki.
„Þetta datt ekki alveg 100 prósent með okkur. Auðvitað er Slóvakía með hörkulið, en ef við ætlum að koma okkur á stórmót þá þurfum við að vera betri eins og lið eins og Slóvakía,“ sagði hann.
J-riðilinn er einn þriggja riðla sem innihalda sex lið á meðan hinir sjö riðlarnir eru með fimm liðum. „Ég ætla að vera jákvæður á það og segja að það sé gott fyrir okkur. Við getum verið sáttir og bjartsýnir,“ sagði Jóhannes Karl Guðjónsson.